Árið 2004 fór ég ásamt tveimur öðrum Íslendingum og haug af Evrópu-búum í ferð á vegum ESB til Rúmeníu. Tilgangurinn var aðallega að byggja upp tómstundarúrræði fyrir götubörn (Roma-fólks) og kynna evrópska hugmyndafræði eins og samlyndi, virðingu, vináttu og fleira. Heimamenn tóku misvel í þetta. Ég lærði margt um manneskjuna og aðrar skepnur í þessari ferð. Það sem var athyglisverðast var samt maturinn. Austur-evrópskur matur er athyglisverður. Ég fór sem verkefnastjóri í ferðinni og fór því í undirbúnings ferð nokkrum mánuðum áður en hópurinn hittist. Í undirbúningsferðinni fórum við meðal annars á veitingastað sem samkvæmt innfæddum bauð uppá dýrindis steikur, hér er vinsælasti rétturinn:
Þetta er sem sagt grísahryggur með banana, franskar, beikon, sultaður laukur, appelsínur og líklegast allt annað sem fannst í eldhúsinu þann daginn.
Við ferðuðumst um suð-vestur hluta Rúmeníu á alls kyns ferðamátum og þurftum að elda og gista á hinum ýmsu stöðum. Hér gildir sjálfsbjargarviðleitnin. Tveir voru útnefndir kokkar:
Hreinlæti og vandlæti í eldamennsku voru hugtök sem lítið þýddi að hugsa um.
Engin eldavél var til staðar þannig að það þurfti stundum að grafa holu og útbúa jarðofna.
Einn af þjóðarréttum Rúmena er beljumaga súpa…jubb. Þeir skera sem sagt magann úr beljunni í ca 2 cm strimla og sjóða í soði með lauk ásamt ýmsu öðru sem til fellur:
Súpan sem slík minnir helst á kjötsúpu en beljumaginn er hlaupkenndur og seigur og vægast sagt viðbjóðslegur undir tönn.
Í þessari ferð lærði ég líka að meta hrísgrjón því ef allt annað er viðbjóður getur alltaf treyst á grjónin. Mmmm víðsýni.