Gott kartöflusalat getur bjargað öllu. Mamma gerir besta kartöflusalat sem ég hef smakkað, við erum að tala um majónes, egg, kartöflur, rauðlauk, steinselju og sitt hvað fleira.
Ég er alltaf að reyna setja mitt tvist á kartöflusalatið. Ég er mikill aðdáandi sætu kartöflunnar. Sæt kartafla með Smoky Barbecue Aioli frá Stonewall er frábær blanda.
Ég setti þetta saman í kartöflusalat með mexíkóskum snúning.
Innihald:
0,5 kg kartöflur
1 sæt kartafla
2 harðsoðin egg
1 rauðlaukur
1 dós maísbaunir
5 msk Smoky Barbecue Aioli
Þurrkuð chillifræ
Þurrkaður hvítlaukur og steinselja
Kartöflurnar eru soðnar, með hýði (af því ég nenni aldrei að skræla, auk þess finnst mér bragðið af hýðinu gott). Sæta kartaflan fer með í pottinn, skræld og skorin í svipaða bita og kartöflurnar, smá hvítlauksolía og salt sett í pottinn. Rauðlaukurinn og eggin eru smátt skorin. Öllu er svo blandað saman, einu af öðru. Ég vil hafa smá kick í salatinu og set þess vegna slatta af chilli.
Með grillaðri kjúklingabringu er þetta feikinóg, þetta þarf ekki alltaf að vera flókið.