Mér þykir afar vænt um eldhúsið mitt. Ég flutti inn á Leifsgötu núna í janúar síðastliðnum og er með svo frábæran leigusala að hún gaf mér alveg frítt spil varðandi hvað ég mætti gera við eldhúsið.
Það er búið upprunalegri innréttingu frá því í kringum 1950 sem mér finnst mjög sjarmerandi, fullt af skápum og meira segja lítil kartöflugeymsla. Innréttingin og veggirnir voru reyndar málaðir heiðgulir, það fannst mér ekki fínt.
Ég var nýbúinn að sjá Star Wars: The Force Awakens í bíó þegar ég tók við íbúðinni og eitthvað í litapallettunni í myndinni sat í mér. Ljósbrúni liturinn á kuflunum sem contrastaði við gyllt og dökkblátt. Ég fann svipaða liti í Húsasmiðjunni, mokka og nordisk havbla, mér finnst þeir fara vel við gylltu handföngin á skápunum. Ég þarf að geta haft eitthvað um eldhúsið að segja svo mér líði vel í því og geti brasað og brasað 🙂
Svo var lítið mál að ,,krydda“ uppá eldhúsið með litlum hlutum eins og lítilli ljósaseríu í gluggan yfir öllum krukkunum:
Hillurnar á veggnum eru bara mjög venjulegar og úr IKEA en með lýsingu undir og litum í matarstellinu finnst mér þetta koma ljómandi vel út.
Á vegginn gagnstætt hillunum málaði ég svo smá skúlptúr sem má túlka sem höfuð með Dauðastyrnið úr Star Wars sem auga, tala nú ekki um þegar maður horfir á það og lætur ljósið mynda augastein.
Eldhúsborðið er svo búið til úr gömlu brettatimbri sem ég bæsaði upp og keypti svo fætur í Góða hirðinum. Stólarnir eru frá 1964 og voru í eigu ömmu minnar, ég pússaði þá upp, límdi saman og sprautaði. Talandi um ömmu mína þá verð ég alltaf að hafa gamla kökukeflið hennar uppi við, það er einhver sjarmi yfir því.
Undir súðinni er ég svo með svarta kistu sem ég smíðaði þegar ég var 15 ára gerpi í Laugalækjarskóla, hún hefur alltaf fylgt mér…þrátt fyrir að ég viti aldrei almennilega hvað ég eigi að gera við hana.
Hérna er sko hægt að brasa og halda matarboð.