Ég skellti mér í berjamó um daginn og ákvað að það væri nú sérdeilis góð hugmynd að kippa einhverju kruðeríi með til að maula á. Ég leitaði að uppskriftum á internetinu að sniðugum brownies-uppskriftum, ég skrifað áður um blæti mitt á brownies-kökum, sjá hér: https://toddibrasar.wordpress.com/2012/11/04/slutty-brownies/
Ég fann ágætis grunnuppskrift á netinu og ákvað að bæta Rolo-bitum útí í staðinn fyrir hefðbundna súkkulaðibita, niðurstaðan kom skemmtilega á óvart.
Uppskrift:
170 gr smjör
200 gr púðursykur
150 gr sykur
3 egg
1 eggjarauða
2 tsk vanilludropar
125gr kakó
50 gr hveiti
3 rúllur af Rolo
50 gr pekanhnetur
Aðferð:
Smjörið er brætt í potti við miðlungshita, sykrinum og púðusykrinum er svo bætt útí og hrært vel saman þar til það er orðið mjúkt.
Þessu næst fara eggin útí eitt af öðru og eggjarauðan, passa að hræra vel á milli, síðan er það vanilludroparnir og svo kakóið og hveitið.
Að lokum fara skornir Rolo-bitarnir (í helming) útí og blandað saman, deiginu er svo hellt í form og hnetunum raðað yfir.
Bakað í fallegu formi við 180°c í ca 45 mínútur eða þar til miðjan er orðin „hrein“ þegar maður stingur pinna þar ofan í. Mikilvægt er að skera kökuna í bita áður en hún kólnar of mikið, síðan skella henni í ísskápinn.
Niðurstaðan er frábærlega seigar kökur sem bráðna uppí manni, sannarlega ekkert heilsufæði en obbosins gúmmelaði með einum rótsterkum kaffibolla, góð pása frá berjatínslunni.