Ég hef löngum verið á Jóa Fel vagninum, bókin hans Brauð og kökubók Hagkaups er dásamlegur grunnur að góðum gúrmei bakstri. Mér finnst samt það einmitt vera það…góður grunnur. Hann er t.d. með ágætis uppskrift að muffins þar sem ég hef ítrekað túlkað, djúsað upp og prófað mig áfram með. Ég rakst síðan á skonsu uppskrift í bókinni, mér fannst hún full slöpp eitthvað þannig að ég djúsaði hana upp, hérna kemur hún:
500gr hveiti
3 egg
75 gr sykur
30 gr lyftiduft
75 gr smjör
2,5 dl rjómi
100 gr súkkulaðidropar
Kanill
Allt nema eitt egg og súkkulaðið er hrært vel saman í gott deig, Jói Fel gerir ráð fyrir því að hver maður eigi Kitchen Aid…svo er ekki en ég bjargaði mér ágætlega með góðri sleif og stinnum upphandleggsvöðvum…svo beiti ég þríhöfða æfingunni sem ég hef séð hann framkvæma oftar en ég kæri mig um í sjónvarpinu. Súkkulaðið fer svo útí þegar deigið er orðið þétt.
Þetta er síðan flatt út og skorið með t.d. pizzaskera í falleg form, hringi jafnvel eða þríhyrninga, bitarnir eiga að vera ca 4 cm þykkir, penslað með hrærðu afgangs egginu og kanil sáldrað yfir. Bakað við 220°c í ca 15 mínútur.
Skonsurnar eru dásamlega sætar og pínu naughty ef maður setur smjör og ost yfir. Gúrmei!