Ég er með svakalegt blæti fyrir góðum pæum. Það jafnast fátt á við pekanpæ með dísætri og mjúkri fyllingu sem bragðast eins og gula stöffið í Jóa Fel vínarbrauðunum, ég held hann hljóti að setja eitthvað töfraefni útí það custard (sem ég held þetta sé).
Þar er annar punktur, vanillu custard, einhvers konar hlaup eða búðingur, mousse eða custard.
Hugmyndin um heitt eplapæ er eins sú mest sjarmerandi og heimilislegasta pæling sem ég get hugsað mér, svona alveg eins og mamma gerir, það er eitthvað alveg óstöðvandi við gott pæ.
Ég hef áður gert eplapæ (sjá hér: https://toddibrasar.wordpress.com/2014/04/18/heitt-eplapae/) en núna tók ég það skrefinu lengra, ég tróð Reese´s Pieces í pæið og djúsaði aðeins upp deigið, svona gerði ég þetta:
Uppskrift:
2 stór rauð epli
Kanill eftir smekk
6 stórir Reese´s Pieces
125 gr púðursykur
50 gr hveiti
80 gr gróft haframjöl
125 gr kalt smjör í teningum
Eins mikið af salthnetum og hver vill
Royal vanillubúðingur
0,4 l rjómi
Eplin eru skræld og skorin í bita og sett í eldfast mót. Kanil er stráð yfir. Reese´s Pieces bollarnir eru skornir í grófa bita og raðað á milli.
Púðursykur, hveiti, haframjöl og smjör er sett í matvinnsluvél og mixað vel saman og svo aðeins hnoðað, deigið er svo mulið í grófum bitum yfir fatið, salthnetum er síðan dreift yfir eftir smekk, ég set frekar mikið, ég elska bragð af brenndum hnetum.
Þetta er svo sett í ofn og bakað í ca 35 mínútur við 180°C.
Búðingsduftið er hrært saman við rjómann, ég set ekki hálfan líter til að hafa þetta aðeins bragðmeira, látið í ísskáp í 5 mínútur og síðan hrært upp aftur, við viljum ekki hafa þetta frauðkennt.
Þetta bragðast hrikalega vel og vanillubúðingurinn tónar ótrúlega vel við pæið.