Ég vinn með dásamlegu fólki, næstum alla föstudaga er morgunkaffi sem starfsmenn sjá um, ég tilheyri svo mörgum deildum og hæðum að ég nýt þess að hlaupa á milli.
Yfirleitt eru marengsar, hnallþórur, heimabakaðar kringlur og alls kyns kræsingar í boði, ég varð hins vegar heillaður einn morguninn þegar ein samstarfskona mín, Elín Hallsteinsdóttir, mætti með þá rosalegustu brauðtertu sem ég hef séð. Hún bragðaðist eins og ég ímynda mér að Sikiley bragðist, ólívur, sólþurrkaðir tómatar, parma-skinka, salami, parmeggiano og ég veit ekki hvað og hvað.
Þar sem ég þykist vera sterka, þögla týpan í vinnunni lá ég á hleri varðandi uppskrift og komst að því að uppskriftin hafi birst fyrst á Vísi árið 2010 (http://www.visir.is/villt-braudterta/article/201018439920)
Ég varð bara að prófa.
Föðurfjölskyldan mín er brauðtertusjúk og fyrir sextugsafmæli föður míns ákvað ég að gera mína útfærslu:
Salatið:
6 egg harðsoðin
Lítil dós marineraðir sólþurrkaðir tómatar, gróft saxað
Ein lúka ferskt basil, saxað
Slatti af graslauk, saxaður
3 hvítlauksgeirar, pressaðir
4 dósir sýrður rjómi 10%
Salt
Pipar
Reykt paprikukrydd
1 sneitt fransbrauð (20 sneiðar)
Á toppinn:
9 sneiðar Rioja skinka, skorin gróft
8 sneiðar ítalskt salami, skorin í tvennt
Hálf krukka af sneiddum grænum ólívum
Klettasalat
Basil og graslaukur
Slatti af gróft rifnum parmesan
Salatið er hrært saman og svo raðaði ég brauðinu (án skorpu) í „fiðrildi“ á stóran disk, setti þar salat, svo annað brauðlag, svo salat, svo brauðlag, svo salat og loks skrautið sem þarf að vera mjög villt.
Þessi terta fer inn í sál mína.