Móðir mín…ok svona ættu allar færslur að byrja.
Móðir mín elskar ostakökur og hún elskar Nóa kropp, hún kenndi mér líka mjög ungum að elska Pipp og amma, mamma hennar kenndi mér að borða Remi kexið, þessi færsla er þess vegna til heiðurs þeim konum sem stærstan hluta eiga í uppeldi mínu og bera að einhverju leyti ábyrgð á því hver ég er í dag.
Nýja piparmyntu Nóa kroppið er ofsalega gott, ég hélt ég væri búinn að finna sælgætið sem myndi láta mig fá hjartaáfall þegar ég smakkaði karamellu Nóa kropp fyrst en oh my lordy! Piparmyntu Nóa kroppið jafnvel slær því við, ég kann gríðarlega vel að meta þetta framtak og markaðsátak hjá Nóa Sírius að koma með sérútgáfur af sælgæti í takmarkaðan tíma, þetta er skemmtilegt.
Einhver gaukaði því að mér um daginn að ,,swirl“ væri það heitasta í ostakökufræðunum, við skulum kalla það mjúkblöndun hér eftir.
Í botninn notaði ég Remi kex og Hobnobs með ljósu súkkulaði og smá smjör, mjög góður grunnur.
Annars er uppskriftin svona:
1 pakki Remi
3/4 pakki Hobnobs
50 gr smjör
Hálf stór dós rjómaostur (ca 200gr)
1 pakki Royal vanillubúðingur
4 dl nýmjólk
Hálf stór dós rjómaostur (ca 200gr)
4 stórar skeiðar af Nutella
1 poki piparmyntu Nóa kropp
Aðferð:
Kexið og smjörið er sett í matvinnsluvél og látið maukast þar til það er orðið pínu klístrað og farið að hanga saman, þrýst í form og í ísskáp í smá stund.
Búðingur er hrærður í mjólkinni og látið stífna í nokkrar mínútur (það má smakka á milli atriða), svo hrært saman við mjúkan rjómaost með handþeytara.
Nutellað og rjómaostur er þeytt saman með handþeytara í annarri skál. Búðings/rjómaostsblöndunni er svo mjúkblandað saman við (swirlið muniði?) ekki of mikið og sett yfir botninn með sleikju.
Nóa kroppinu raðað yfir og borið fram með piparmyntuís frá Ítölskum ís ehf.
Veisla!