Ójájájá, ég hélt mexíkóskt matarboð síðustu helgi og einn af réttunum sem var í boði var tacos með heimagerðu chili con carne (kássa með kjöti).
Ég þoli ekki þegar maður fer á veitingastað eða í boð og einhver ætlar að bjóða uppá taco eða burritos en leggur svo engan metnað í kássuna, glatað, eins og taco er nú skemmtilegt.
En fyrst…
Í fordrykk var ég með drykk sem heitir South of The Border og er mjög einfaldur, hann inniheldur tekíla, lime-safa og Kahlúa…og klaka, undarleg blanda en algjörlega heillandi ef maður kemst í gegnum fyrsta bragðsjokksopann.
En þá að chili-inu:
Innihaldið í góðu chili con carne er margbreytilegt og ætti í raun að fara eftir tilfinningum manns, í þetta skiptið setti ég alls konar undarlegheit saman við og þetta var vel sterkt, túlkið að vild, þetta er innihaldið og fór í þessari röð í stóra pottinn minn:
Ca 1 kg Nautahakk
Ólívuolía
1 rauðlaukur
4 hvítlauksrif
Creole krydd
Reykt paprika
Cayenne pipar
Kúmen
Þurrkað chili
1 dós Tómatmauk
1 dós Tómatpuree
Slatti af engifermauki
1 dós Nýrnabaunir
1 Epli
1 flaska rótarbjór (Root Beer)
Hakkið er steikt í olíunni og lauknum og kryddað til svo fara innihaldsefnin að detta útí eitt af öðru og látið malla í ca klukkutíma, þá tók ég þetta af hellunni og leyfði að kólna, gerði þetta fyrr um daginn, svo þegar ca hálftími var í gestina kynnti ég aftur upp í chilinu, þá var allt bragðið búið að blandast vel saman, þarf vart að taka fram að ilmurinn er stórkostlegur og ég þurfti reglulega að „smakka mig til“, bæta við salti, smá chili o.s.fr.v.
Ég elska þessa IKEA-eplagræju sem ég fjárfesti í, ég er farinn að nenna að borða epli aftur…jei!
Svo serveraði ég þetta með ananassneiðum og sjálfsafgreiðslu, var með heimagert guacamole, sýrðan rjóma, ferskan sætan chili pipar og rifinn ost.
Ég náði bara einni mynd af gestunum áður en þeir rifu þetta í sig, hún verður að duga, btw, ég var svo með „litla flugeldasýningu“ á miðnætti, frábær hugmynd Þröstur…í bakgarði í hundrað og einum (insert slowclap).
Muy bueno!