Friðheimar er alveg ótrúlegur staður. Bær sem byggt hefur upp ferðaþjónustu og dregur til sín þúsundir gesta í hverjum mánuði.
Friðheimar er risastórt gróðurhús sem ræktar aðallega tómata og agúrkur. Ástríðan fyrir vörunni er alls ráðandi í framsetningu og meðhöndlun. Matseðillinn er einfaldur og samanstendur af tómatsúpu, ravioli eða tortillu auk eftirrétta. Allir réttirnir innihalda tómata eða agúrkur.
Þetta er svo einfalt og svo fallegt, ég varð gjörsamlega heillaður af hugmyndafræðinni. Spikfeitar býflugur svamla svo um loftið og frjóvga tómatplönturnar.
Veitingastaðurinn sjálfur er inni í gróðurhúsinu þannig að hitastigið og andrúmsloftið fær mann til að hugsa um sólríka daga á Sikiley. Á hverju borði er basiltré sem maður getur klippt niður ef manni finnst vanta slíkt. Ég fékk mér tómatsúpuna sem er ofureinföld og það er það sem er svo fallegt, á borðinu er svo smjör, sýrður rjómi, salt og pipar. Það sem gerir útslagið hérna er brauðið sem fylgir með, holymoly maður minn! Það er bakað á staðnum og er með osti og alls konar kryddi, lungamjúkt, það hríslaðist um mig sæluhrollur við fyrsta bita.
Barinn á Friðheimum býður uppá alls kyns kokteila sem innihalda tómata eða agúrkur, gin og tónik, bloody mary o.s.fr.v. Auk þess eru þau með ljómandi uppáhellingu.
Á Friðheimum er einnig hrossarækt og haldnar hrossasýningar reglulega fyrir alla fjölskylduna.
Fjölskyldan sjálf var á vakt og það var gjörsamlega stappað þegar ég mætti á svæðið um kl 13:30 á laugardegi. Það er bara opið frá kl 12 til kl 16 þannig um að gera að panta borð. Ég var bara einn á ferð og þurfti að bíða í 30 mínútur eftir borði, en það var í góðu lagi, það gaf mér tækifæri til að skoða staðinn, ég er að segja ykkur það, þetta er æðislegt concept. Á næsta bæ við hliðina er svo rekinn berjasala þar sem seld eru hindber, brómber og jarðaber.
Þessi staður er svo sannarlega virði þess að kíkja í bíltúr úr höfuðborginni, svo er fullt á leiðinni til að skoða.
Heimasíða: Friðheimar
Kostir: Frábært brauð, ástríða fyrir vörunni, mikil upplifun, einstakur staður.
Gallar: Bílastæði eða leiðbeiningar um hvert maður eigi að fara, væri betra að segja fólki að leggja við fremra bílastæðið og ganga.
Stjörnur: