Minilik á Flúðum

2017-04-12 14.30.48

Sólin skín, ég bruna ásamt föruneytinu inn Biskupstungurnar, það er glymrandi gott sing-a-long í gangi, allir í góðum fíling, við erum nefnilega á leiðinni á leynistað, hálfgerðan svindlstað.

Í miðri eyðimörkinni rís bær er nefndur er Flúðir. Mikið hitasvæði þar sem gerðar eru rannsóknir á sjálfbærum orkuiðnaði og jarðvarma. Höfuðborg sveppanna á Íslandi. Miðpunktur sumarbústaðabyggðar Biskupstungna og Gnúpverjahrepps, allsgnægtarborð Suðurlandsundirl…ok ég er hættur 🙂

2017-04-22 20.47.13

Í litlum  sumarbústað á bílastæði fyrir framan ráðhúsið á Flúðum (já, RÁÐHÚSIÐ) er falin perla sem kallast Minilik. Flest bæjarfélög hafa Olís sjoppur sem framreiða sjoppulega hamborgara og franskar, Sóma samlokur og annað ógeðisfæði. En þarna er vin í eyðimörkinni, nefnilega Minilik.

Minilik er eþíópískur veitingastaður þar sem eþíópískur matur og matarhefðir eru í hávegum hafðar. Ekki er stressið að þvælast fyrir mönnum, Árni og Yirga gera allt sjálf, þjóna, elda, þrífa og hella uppá eþíópískt kaffi að kúnstarinnar sið.

Við vorum átta manna hópur á ferðinni eitt hádegið og fengum Yirga til að opna sérstaklega fyrir okkur, um leið og ferðamennirnir sáu að það var opið streymdu þeir að og brátt fylltist staðurinn og augljóslega markaður fyrir eitthvað annað en sveittar vegasjoppur.

Við fengum okkur öll rétt númer 18 sem er svona smakkmatseðill, alls konar bland af kjúklinga, grænmetis, lamba og nautaréttum sem ég kann svo sem engin frekari skil á en maður minn hvað þetta var bragðgott, auk þess var líka salat og heimagerður ostur. Á minilik eru engir diskar eða hnífapör heldur kemur maturinn á stórum sameiginlegum diski og er allt borðað með kökum sem fylgja matnum að eþíópískum sið. Eins og einn samferðamaður minn sagði: ,,…það gerist eitthvað í kollektívinu“. Sem er alveg rétt, fólk neyðist til að vera í samskiptum meðan það borðar.

2017-04-12 13.25.34

Þegar við vorum búin að borða tók Yirga við að hella uppá kaffi, hún byrjar þá á að rista baunir…inni í sumarbústaðnum. Það virtist engin áhrif hafa á Yirga að það væri fólk að bíða, allt hefur sinn tíma, eitthvað mjög sjarmerandi við þessa upplifun. Ég hvet alla til að kíkja á Minilik.

Heimasíða: Minilik

Kostir: Öðruvísi, frábær matur, ódýrt, persónuleg þjónusta, mæli með eþíópíska bjórnum.

Gallar: Það mun koma matarlykt af fötunum þínum. Ekki fyrir þá sem eiga erfitt með subbulega putta.

Stjörnur:

4

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s