Ostur var líklegast fundinn upp á himnum…eða af mjög færum kúabónda. Alla vega, góður cheddar ostur fær hjarta mitt til að taka kipp.
Snowdonia cheddar osturinn sem fæst núna út um allt er mjög góður, ég er hrifnastur af þeim svarta sem er extra þroskaður og með smá reykkeim. Sá appelsínuguli með engiferi er líka dásamlegur.
Þetta ofur einfalda ostakex er frábærlega gott með sterkri chilli sultu eða góðu majónessalati.
Þú þarft:
100 gr kalt smjör
100gr hveiti
50 gr cheddar
50 gr parmesan
2 tsk sinnepsduft
Chilli flögur
Salt
1 egg
Þurrkað rósmarín
Sesamfræ
Aðferð:
Smjörið er skorið í bita og sett í matvinnsluvél og unnið saman við hveiti. Rifnum cheddar og rifnum parmesan ásamt salti, sinnepsdufti og chilliflögum er sett saman við og blitzað þar til það er orðið að þéttum deighnullungi. Deigið er á sett í matarfilmu og í kæli í ca 30 mínútur. Svo er það flatt út og kökurnar skornar út. Penslað með eggi og rósmarín og sesamfræ sett á toppinn. Bakað við 175°C í ca 10 mínútur.
Svo má líka prófa sig áfram með það sem maður setur á toppinn, t.d. kúmen eða meira chilli.
Ilmurinn er himneskur og bragðið eftir því.