Haustið er í póstinum og það fær mig til hugsa um matarmiklar súpur, grillað lambalæri, buff með spældu eggi og brúnni sósu og…pæ, ok, bökur, svo við höfum þetta allt rétt.
Þessa uppskrift geri ég reglulega, deigið er svo súper einfalt en ógurlega gott og maður getur eiginlega blandað hverju sem er saman við. Á ensku er þetta crumble pie og virkar þannig að maður mylur deigið í formið…MYLSNUDEIG!
Í deigið þarftu bara:
- 50 gr hveiti
- 80 gr gróft haframjöl
- 125 gr púðursykur
- 125 gr kalt smjör
Í perupæið þarftu auk þess:
- 2 perur
- 1 plötu súkkulaði með saltkaramellufyllingu
- Salthnetur
- Kanill
Yfirleitt nota ég epli og salthnetur, svona eins og mamma gerir en að þessu sinni átti ég bara perur og notaði þær bara. Það má auðvitað líka nota bæði…og alls konar. Perurnar eru vel sætar og það var fullkomið kombó að nota súkkulaði með saltkaramellufyllingu með.
Ég sker smjörið í litla teninga, set svo allt deigefnið í matvinnsluvél og blitza þar til deigið verður mylsnukennt. Þá hnoða ég það aðeins í höndunum og myl svo yfir ávextina.
Perurnar eru skornar í litla bita og settar í botninn á eldföstu móti, sáldra kanil yfir. Fyrir þá sem vilja fara algjörlega overboard má setja hnetusmjörsklessur á víð og dreif yfir perurnar. Ég brýt svo súkkulaðið í grófa bita og dreifi yfir og svo kemur mylsnudeigið yfir og svo alveg slatti af salthnetum þar yfir (eins mikið og hver vill) og aðeins meiri kanil þar yfir.
Bakan er svo bökuð í ca 40 mín á 200°c. Lyktin verður ærandi eftir svona 15 mínútur!
Ég bar þessa fram með sumarísnum í ár sem inniheldur banana og anananas…trúðu mér þú þarft rótsterkt kaffi með þessu.