Ég er ekki mikið fyrir tertur, rjómatertur, marengs (gubb), hnallþórur og fleira í þeim dúr. Kransakökur og kaffikökur eru allt annað mál, hver elskar ekki semi-sæta sandköku, marmaraköku, jólaköku eða annað slíkt með kaffinu sínu?
Ég gramsa mikið á netinu og aðallega á suðurríkja matarsíðum, þar eru menn mjög uppteknir af því sem kaninn kallar „Pound cake“ sem er hefðbundin sæt vanillu sandkaka.
Að blanda saman, fikta og gera tilraunir eru mitt thing og ég er algjör sökker í Oreo þannig að ég prófaði að blanda þessu tvennu saman og útkoman varð þessi himneska Oreokaka.
Innihald:
200gr mjúkt smjör
125 ml rjómi
1/4 pk vanillubúðingur
350 gr sykur
5 egg
400 gr hveiti
1/2 tsk salt
1/2 tsk lyftiduft
2 dl mjólk
2 tsk vanilludropar
24 Oreokexkökur
Aðferð:
Rjóminn og búðingurinn er hrært saman og blandað svo saman við smjörið og þeytt vel. Sykrinum er svo smátt og smátt blandað útí.
Eggjunum svo einu af öðru og hrært vel á milli.
Þurrefnunum er svo sáldrað saman við og mjólkin og vanilludroparnir svona inn á milli, þetta þarf allt að gerast á jöfnum hraða því annars fer allt í kekki og steik.
16 Oreo eru svo mulin og blandað saman við, deiginu er svo hellt í stór smurð form (kannski 2, fer eftir stærð) og 8 Oreo eru svo mulin gróft og sett ofan á. Þetta er mjög stór uppskrift (eins og ég lærði þegar ég þurfti að skipta þessu í tvær skálar).
Bakað við 175°c í ca 80-90 mín eða þangað til maður getur sett tein í miðjuna og hann kemur út hreinn.
Fyrir ævintýragjarna er svo hægt að gluða glassúr yfir og þá mæli ég með kaffiglassúr, flórsykur og sterkt kaffi basically.
Þetta gott fólk er roooosaleg kaka og smellpassar í sunnudagsboðið, deigið bragðast líka himneskt og tilvalið að smakka sleikjuna.
Góðar stundir.