Puttamatur! Ég hugsa alltaf um Gúlliver í Putalandi þegar ég heyri einhvern segja…Puttamatur, það er líka erfitt að segja puttamatur án þess að beinlínis hrópa það….PUTTAMATUR!.
Reyndar er puttamatur mjög ósjarmerandi orð, fingrafóður er jafnvel enn verra. Pylsur í teppi og beikonvafðar döðlur teljast samt varla sem forréttur þannig að eitthvað þarf maður að nefna þetta.
Ég var með breskt matarboð fyrir jólin og í Bretlandi er við hæfi að bjóða gestum uppá Prosecco, sem er basically ódýr útgáfa af freyðivíni, sem er náttúrulega bara ódýr útgáfa af kampavíni, og svo einhvers konar puttamat eða bitasmakk…bitasmakk?? Nei nú hættir þú!
Þar sem einn gesturinn var grænmetisæta þá þurfti ég að hugsa út fyrir kassann og ég tók vegan-smápylsur, smurði þær með sterku sinnepi og vafði í smjördeig, penslaði með eggi og stráði sesam-fræjum yfir. Þetta heppnaðist betur en ég þorði að vona, þar til grænmetisætan í hópnum fór að velta upp þeirri pælingu um það af hverju hún sem grænmetisæta ætti að vilja borða eitthvað sem bragðaðist eins og kjöt en væri ekki kjöt. Ég hafði einfaldlega ekki leitt hugann að því.
Svo var það svona einn af mínum uppáhalds, beikonvafðar ferskar döðlur smurðar með smoky barbecue sósu og með muldum chilli hrískökum yfir.
Báðir þessir réttir eru svo einfaldir en lúkka svo skemmtilega og öllum finnst góðir, það er líka mikilvægt að huga að framsetningu, augað-munnur-magi, alla vega geta allir borðað…meira segja þeir sem eru vegan.