Setjum okkur í stellingar, það er föstudagur og klukkan er alveg að verða 18, þú ert búin/n að kíkja í drykk með vinnufélögunum og ykkur er farið að hungra í eitthvað kruðerí, þið dettið inn á Vegamót og pantið ykkur Louisiana kjúklingastrimlana, líf ykkar mun aldrei verða samt aftur. Það er eitthvað við samspil heitu barbecue sósunnar við gráðaostasósuna og kjúklinginn sem er stökkur að utan en dúnamjúkur að innan, dásamleg flétta.
Hér höfum við þetta allt, nema ég djúpsteiki ekki kjúklinginn heldur baka hann í ofni. Ég nota Buffalo vængja krydd frá McCormick blandað við smá hveiti, sker kjúklingabringu í strimla, af því mér finnst kjúklingalundir ekkert nema sinar og viðbjóður, velti upp úr kryddblöndunni, svo í egg og þaðan í rasp.
Þetta er svo bakað í ca 40 mínútur og þá er strimlunum velt upp úr Sweet Heat BBQ-sósu frá Stubbs, sem fæst í Kosti, hún er sæt en stingur líka aðeins.
Í gráðaostasósuna þarf maður:
Sýrðan rjóma
Majónes
Gráðaost
Marinn hvítlauk
Svartan pipar
Salt
…svo má líka bara kaupa eina slíka frá herra E. Finnssyni 😉