Tagliatelle með pistasíupestói og ristuðum möndlum

2016-07-11 20.17.14

Ég er nýkominn heim úr þriggja vikna upplifunar og matarferð til Sikileyjar. Ég gisti á sveitabæjum, tjaldi í fjöllunum og borðaði rosa mikið af góðum mat, kynntist frábæru fólki og fékk að upplifa eldamennsku hjá heimafólki sem hafði raunverulega ástríðu fyrir matnum sínum, hreinleika og uppruna. Ferðina fór ég til að sækja mér innblástur, skipta um umhverfi, losna við ákveðna hlekki og að fá að reyna mig í mekka matarmenningar á Ítalíu.

Hreinn matur og einfaldur auðkenndi allt, það var ekkert verið að flækja hlutina með löðrandi hveitijafningum eða ofsteikja eitt eða neitt. Ef það var boðið uppá pasta á sveitaheimilunum þá var það að sjálfsögðu heimagert. Kvöldmatur var yfirleitt ekki snæddur fyrr en um kl 21, mér fannst það alltaf pínu skrítið, sérstaklega í ljósi þess að yfirleitt var hádegismatur frekar léttur þar sem hitinn var nær óbærilegur og því borðuðu menn yfirleitt duglega á kvöldin og yfirleitt var fjórréttað.

Ég gisti í tjaldi á bæ sem heitir Carrubella sem er ekki langt frá Noto á suður hluta eyjunnar. Carrubella bærinn er staðsettur uppi í fjöllum á svæði þar sem eru mörg eyðibýli og því var Carrubella eins og vin í eyðimörkinni. Sarah sem rekur Carrubella hefur tekið yfir þrjú eyðibýli og breytt þeim í ferðaþjónustu og svo býður hún einnig upp á uppábúin tjöld eins og þau sem ég gisti í. Ég mæli með því að kíkja á þetta fyrir þá sem eru í ævintýraleit.

Carrubella á Facebook

Eitt kvöldið kom Sarah mér í samband við eldri hjón sem búa á bæ ekki langt frá og hún tjáði mér að þau hefðu mjög gaman af því að fá til sín fólk í mat, ókunnugt eða ekki, allir velkomnir, borga smá, borða vel og allir glaðir. Ég sló að sjálfsögðu til þar sem ein af reglunum í ferðinni var sú að ég mátti aldrei segja nei ef mér yrði boðið eitthvað.

Ég er nú ekki beint sleipur í ítölskunni en gat þó staulast í gegnum matseðla og skilið þegar ég var spurður basic spurninga. Einn af réttunum hjá gömlu hjónunum var tagliatelle með pistasíupestói og ristuðum möndlum…og svo einhverju sem ég skildi ekki, hljómaði samt gríðarlega vel. Diskurinn kom á borðið og leit vel út, fyrsti bitinn og það lá við að ég kastaði upp, þetta sem ég skildi ekki lýsingunni var sem sagt ansjósur, pistasíu- og ansjósupestó, bragðið var eins og högg á hnakkann og mér hugnaðist það alls ekki en hugmyndin um réttinn, pistasíupestóið og ristuðu möndlurnar, framsetningin og allt það, spot on.

2016-07-04 20.19.15
Svona leit diskurinn út, biðst afsökunar á lélegum myndgæðum sem orsakast mögulega af frábæru rauðvíni…en þið náið pælingunni 😉

Hér kemur mín útgáfa af tagliatelle með pistasíupestói og ristuðum möndlum:

Innihald:

Tagliatelle

Pistasíupestó (mitt keypti ég á markaði en það fæst svipað frá Jamie Oliver í Krónunni)

Möndlur (bakaðar með ólívuolíu, salti og sterku paprikukryddi)

Rucola salat

Gul paprika

Kirsuberjatómatar

Balsamic sýróp

Aðferð:

Möndlurnar kryddaðar, bakaðar og skornar smátt, pastað soðið eftir leiðbeiningum á pakkanum í olíu og smá salti. Vatninu hellt af og pestói bætt saman við. Rucola sett á disk og pasta yfir, paprika og tómatar meðfram, möndlur yfir og balsamic yfir grænmetið.

Þetta er svo einfalt og hreint að ég dáist að þessu. Ég hef verið allt of upptekinn af því að vera með óþarfa vesen uppá síðkastið.

IMG_20160711_202029

Ég er í skýjunum með ferðina og kem heim með fullt höfuð af nýjum hugmyndum og hlakka til að skrifa um þær, útfrá þessari ferð komu svo óvænt tækifæri t.d. boð um að fara í ólívu-uppskeru í október og fleira sem ég segi frá síðar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s