Karamellaðar fíkjur

2016-12-31-16-25-38

Ég er nýkominn frá Marrakech í Marokkó þar sem ég kynntist marokkóskri matargerð, ég var undirbúinn undir mikið af döðlum, fíkjum, hummus og norður afrískum undrum í matargerðinni. Ég fékk allt það og meira til.

Alls staðar þar sem ég fór fann ég þó eitthvað einkennandi bragð. Marokkóbúar nota mikið af kryddum, kardemommur, múskat, negull, kanill eru þau brögð sem er unnið mikið með auk saffran. Ég velti þessu töluvert fyrir mér og spurði alltaf hvaða bragð þetta væri sem ég væri að finna, alls staðar var sama svarið: „…35 spices, very good for bad chefs, you should try it!“ Þeir nota sem sagt kryddblöndu af 35 kryddum sem gerir það að verkum að það er næstum sama bragð af öllum mat, alla vega þar sem ég borðaði og kryddsölumenn sem voru alls staðar í Medinu (gömlu Marrakech) seldu kryddið í kílóavís. Ég var ekkert sérlega hrifinn af þessu, vil frekar einbeita mér að einfaldari og meira einkennandi brögðum.

Marrakech er eiginlega alveg sturluð borg, marmarahallir, mikill íburður, pálmatré á annan veginn og svo mikil fátækt, apar, kameldýr, snákar, betlarar, bænaköll og mikið áreiti á hinn veginn. Appelsínu og mandarínutré eru á hverju horni, sannarlega ótrúleg upplifun.2016-12-18-15-11-08

Þetta var athyglisverð ferð fyrir margra hluta sakir, ég upplifði einangrun þar sem ég tala bara menntaskólafrönsku og afar fáir tala ensku í borginni, ferðamennirnir eru helst Frakkar og Þjóðverjar í fjölskyldufríi og erfitt að tengjast. En það var virkilega kærkomið að næla sér í smá sólarglætu í skammdeginu og stinga jólin af í smástund.

En ég fékk margar hugmyndir sem ég ætla að vinna úr á næstu vikum og gera mitt besta til að sýna ykkur.

Á veitingastaðnum Bella Italia sem stendur við Mohamed Avenue VI fékk ég frábæra nautasteik sem var fylgt með karamelliseruðum fíkjum, ricotta osti með valhnetum og parmesan kexi, þetta hafði ég ekki séð áður og mér fannst tilvalið fyrir áramótin að útbúa fíkjur til að hafa með steikinni.

2016-12-21-19-35-01

Þú þarft:

1 poka af gráfíkjum

Safa úr 1 appelsínu

100gr smjör

3 msk púðursykur

2 tsk kanil

Hálfa hnetu af rifnum múskat

Hálfa tsk af muldum negul

Salt og svartur pipar

Slettu af púrtvíni.

Aðferð:

Fíkjurnar skornar í hæfilega bita, smjörið og sykurinn er brætt saman og kryddunum bætt útí, appelsínu safinn soðinn saman við, fíkjurnar settar útí og látið malla og þá er púrtvíninu bætt við, látið sjóða saman í góða karamellu, fíkjurnar eru þá veiddar upp og bornar fram helst volgar.

Fíkjurnar braðgast mjög vel einar og sér eða sem meðlæti með áramótasteikinni. Bragðið er sterkt og einkennandi og minnir pínu á jólaglögg.

Svo er líka frábært að setja þær á gott brauð með smá sinnepi og sterkum cheddar osti.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s