Hátíðarnar eru ein stór afgangaveisla. Hamborgarhryggur, wellington steik, gæs og allt það er gott og blessað en það eru afgangarnir sem gera mig spenntan.
Það er klassísk hefð í minni fjölskyldu að mamma geri rósinkálsalat á jólum og áramótum, mjög einfalt salat sem inniheldur bara soðið rósinkál, perlulauk og sýrðan rjóma, en það er eitthvað við það hvernig mamma gerir þetta. Ég lærði sem sagt snemma að elska grænmetisóvin Bretans, rósinkálið (e. sprouts).
Ég átti einn poka af rósinkáli í ísskápnum, smá beikon (sem er skylda að eiga) og alls konar góðgæti sem tengist Marokkó. Tilvalið að mixa eitthvað gott stöff.
Þú þarft:
1 pakka af Kúskúsi, helst frá Ainsley (kókos og sítrónugras)
1 poki af rósinkáli (ca. 250gr)
7 döðlur
1 rauðlaukur
6 vænar beikon sneiðar
Svartur pipar
Anísduft
1 lime
1 avocado
Kardemommufræ (má sleppa)
Smá sykur
Aðferð:
Kúskúsið frá Ainsley Harriott (gamla sjónvarpskokkinum) kemur bragðbætt en er alveg glettilega gott og tekur ekki nema 5 mínútur að útbúa. Setur sjóðandi vatn yfir, bíður í 3 mínútur, smá olía, hrært með gaffli, beðið í 2 mínútur.
Beikonið baka ég, set svartan pipar og anís yfir, gefur ótrúlega gott bragð, við baksturinn verður líka fitan eftir á smjörpappírnum og beikonið verður extra stökkt.
Rósinkálið er sett í sjóðandi vatn og soðið í 10 mínútur.
Kardemommurnar eru mélaðar í mortel með sykri.
Svo er allt sett á pönnu og blandað vel saman, lime-safi yfir allt saman og avocado til hliðar.
Dásamlegt.