Messi er magnaður, Messi elskar maís, nokkuð viss um að hann elski majónes líka, parMesan…og allt sem er mmm. Ímyndið ykkur að hér standi eitthvað sniðugt um HM og að Ísland sé að fara spila við Argentínu næstu helgi.
Já fellow kids, ég féll í þessa gryfju, lægsti samnefnari, stuðlun, tíðaranda reference, miðaldra maðurinn sem ég er, að reyna vera sniðugur. Úff. Biðst velvirðingar 🙂
Mér til varnar þá fer fram gríðarleg kornframleiðsla í Argentínu, sjá hér.
Hér er á ferðinni súper einfaldur maís sem er fáránlega góður. Grillaður í hýðinu og smurður með majónesblöndu og velt upp úr parmesan.
Þú þarft:
- Ferskan maís í hýði
- Smjör
- Majónes (Hellmann’s)
- Sítrónusafa
- Chilli
- Svartan pipar
- Salt
- Parmesan
Maður hrærir saman Hellmann’s majónesi (af því allt annað finnst mér slepjulegt), sítrónusafa, söxuðum ferskum chilli, salt og pipar. Set þetta til hliðar. Ríf svo fáránlegt magn af parmesan osti og set á disk.
Maður byrjar á að skella maísnum á sjóðheitt grillið í hýðinu, grillar í 5 mínútur, veltir, og aftur í 5 mínútur. Þá afhýðir maður maísinn og það þarf að gerast hratt því hann er mjöööög heitur, engar áhyggjur þó hýðið sé brennt, það á að vera það.

Svo nuddar maður smjöri á maísinn og skellir aftur á grillið til að fá smá grillrendur og bragð.
Við erum bara að tala um 1-2 mínútur eftir að hýðið er komið af, annars poppast þetta og fer allt út um allt. Mér finnst svo best að smyrja majóblöndunni á með pensli og velta svo upp úr parmesan.
Þetta er pínu messí (insert rimshot) en hrikalega gott og hreinlega ánetjandi.
Geggjað að skella í Messi-maís í sumarbústaðnum yfir leiknum á laugardag.
Ein athugasemd Bæta þinni við