Pizzur eru í mínum huga ómissandi í jólahaldinu og aðventunni. Þegar allt er á milljón, engin hefur tíma fyrir neitt flókið þá er eitthvað fallegt við það að eiga stutta stund saman og skella í nokkrar laufléttar pizzur.
Þessi pizza er með jólaþema, veit ekki af hverju, bara eitthvað við hana sem minnir mig á jólin. Áleggið er rauð epli, hunang, pistasíur, þurrkað chilli og geitaostur. Lyktin af rauðum eplum tryllir mig, minnir mig á þann tíma sem ég vann á ávaxtalagernum hjá Mata, þá overdose-aði maður algjörlega á þessari lykt, en í dag færir hún mér einhvern yl.
Ég notaði Chavroux geitaostinn (fæst í Krónunni), það er ekki of mikið ullarbragð af honum og það fer vel með hunanginu. Hér gengur allt upp. Ég set niðursoðna marsano tómata í staðinn fyrir pizzasósu (fást út um allt í dag) og smá salt og hvítlaukskrydd yfir, rifinn mozzarella og svo áleggið.
Deigið er einhvern veginn svona:
- 5 dl hveiti (helst Durum, annars gerið bara það sem ykkur finnst best)
- 2 msk ólívuolía
- 1 tsk salt
- ca 15 gr þurrger (1 lítill pakki)
- Rúmlega ein matskeið hunang
- 1 ,,mjólkurglas“ volgt vatn
Ég er voðalega mikið í slumpinu, svo hnoðar maður þessu saman eins og enginn sé morgundagurinn, nú eða setur bara í KitchenAid vélina og lætur malla þar til þetta er orðið að góðri klessu. Þá lætur maður hefast í góða stund (ca 30-45 mín) og svo hefst hnoðið aftur.
- Tómatarnir fara á fyrstir, hvítlaukskrydd og gróft salt yfir.
- Rifinn mozzarella
- Rautt epli, skorið í þunna báta
- Klessur af geitaosti dreift jafnt um pizzuna
- Þurrkað chilli dreift vel yfir
- Pistasíurnar eru muldar yfir allt saman.
Svo er þetta bakað í ca 14 mín á 200°C, athugið að ofninn minn drífur ekki hærra, væri betra að nota meiri hita og jafnvel blástur. Svo gluðar maður hunangi yfir.
Jólin í pizzulíki!