Ef maður kann að gera grunnuppskrift að muffins eða bollakökum (sem er basically það sama) þá er ótrúlega auðvelt að leika sér með gúmmelaðið sem maður getur bætt útí, og ef maður hittir á réttu blönduna þá getur maður búið til endalausa möguleika af einföldu kruðeríi sem er gott að grípa í með kaffinu.
Grunnuppskriftin mín er svona:
- 25gr bráðið smjör
- 1 egg
- 75gr sykur
- 1 dós kaffijógúrt
- 1tsk vanillu- eða möndludropar
- 150gr hveiti
- hálf tsk salt
- 1tsk lyftiduft
Maður byrjar á að þeyta saman eggi og sykri þar til létt og ljóst, svo fer smjörið, jógúrtin og droparnir útí, að þessu sinni notaði ég möndludropa, kemur betur út með hvíta súkkulaðinu. Talandi um hvítt súkkulaði, út í blönduna set ég svo:
- 100gr saxað hvítt súkkulaði
- Ca 1 bolli af frosnum bláberjum
Hræri þessu varlega saman og úr verður fallega ljósblá blanda sem ég set svo í muffinsform og baka í 25 mínútur við 175°C.
Laaaangbest með ískaldri mjólk.
PS. Hundsið þennan asnalega Corn Flakes pakka þarna 🙂