Muffins, múffur, bollakökur, hvað sem þið viljið kalla það, ég elska þetta allt!
Þetta fjúsíon á milli hnetusmjörs og lakkrís er rosalegt. Markaðsdeild Nóa Sírius er á fullu þessa daganna við að blanda saman alls konar í kassa fyrir útlendingana, sá núna síðast, Nóa Kropp og Lakkrískonfekt saman, það er athyglisvert. Ég hef hins vegar líka mikið blæti fyrir undarlegheitum eins og dyggir lesendur hafa vafalítið fengið á tilfinninguna.
Hnetusmjörið hefur verið mér hugleikið í mörg mörg ár og ég hef troðið því í alls konar, hérna gerði ég tilraun með að setja hnetusmjör í muffins með lakkrískurli frá Nóa og gluðaði svo appelsínuglassúr yfir, þrátt fyrir að ég sé alfarið á móti appelsínubragði í súkkulaði, þetta hins vegar gengur alveg upp, sýran í appelsínunum tónar vel við lakkrísinn.
Uppskrift:
300 gr hveiti
3 msk kakó
2 tsk lyftiduft
1 tsk matarsódi
1 tsk salt
3 tsk vanillusykur
200 gr sykur
125 gr bráðið smjör
3 egg
2 msk kalt vatn
2 msk hnetusmjör
1 poki lakkrískurl (150gr)
Sykurinn og smjörið er þeytt vel saman og eggjunum bætt útí einu af öðru, þá vatninu og hrært vel. Þurrefnum blandað saman og sett útí blautblönduna í rólegheitunum og hrært vel á meðan, síðan er hnetusmjörinu blandað saman við og loks lakkrískurlinu. Sett í form og bakað við 200°c í 20 mínútur.
Glassúr:
Safi úr einni appelsínu
Flórsykur
Vanillusykur
Hér gildir að finna sín hlutföll, ná réttri þykkt, prófa sig áfram.
Lúxus delikassí með kaffinu á þjóðhátíðardaginn.