Það þykir kannski hipsteralegt að búa í lítilli risíbúð í 101 og versla bara við litlar gúrmei búðir í hverfinu, nota helst aldrei bíl um helgar, leggja áherslu á snyrtimennsku í fatnaði og fallegum hlutum…eeen nýja bakaríið á Frakkastíg, Brauð og co, er líklegast það sem einkennir og sameinar alla hipstera og túrista bæjarins. Í fallega grafítuðu húsi sem áður hýsti hljóðfæraverslunina Rín hefur nú opnað dásamlegt bakarí sem leggur áherslu á súrdeigsbakstur og sérlega vel lagað smjördeigskruðerí.

Þau selja einungis mjólkurvörur frá Biobúi og eggin koma vafalítið frá hænum sem horfðu brosandi í axareggina. Klukkan 9 á sunnudagsmorgni skellti ég mér í göngutúr til að sækja mér brauð og kruðerí í Brauð og co. Þegar ég nálgaðist Frakkastíginn blasti við mér biðröð úr bakaríinu langt út á götu. Ég beið þó stilltur og þolinmóður vegna þess að ég vissi að það yrði þess virði, vanillusnúðarnir þeirra eru svo góðir að ég myndi líklegast ganga til Mordor og til baka fyrir einn slíkan akkúrat núna, þegar röðin kom að mér voru snúðarnir búnir….klukkan 9 á sunnudagsmorgni, en það kom ekki að sök, ég fékk mér vínarbrauð í staðinn og það var ekki síðra, og croissantið þeirra….jidúddamía. Gústi bakari er líka svo helvíti sjarmerandi, vel slakur, skemmtilega flúraður og það er allt svo afslappað þó það sé brjálað að gera, þetta er allt svo basic og heiðarlegt, ég fíla þetta í topp.
Hér er heimasíðan þeirra og fallegar myndir: http://www.braudogco.is/
Það birtist líka skemmtilegt innslag hjá Veitingageiranum af umferðinni í búðina frá föstudeginum langa: http://veitingageirinn.is/svona-var-fostudagurinn-langi-hja-braud-co-video/
Eins og það sé svo ekki nógu hipsteralegt að vera orðinn fastagestur í Brauð og co þá gerði ég minn eigin brauðrasp úr súrdeigsbrauðinu þeirra.
Í raspinn þarftu:
1 súrdeigsbrauð
6 hvítlauksrif
Góðan bita af parmesan
Safi úr 2 lime
2 slettur ólívuolía
Salt og mögulega krydd
Ég skar brauðið í þykkar sneiðar og raðaði í form. Parmesaninn skar ég gróft og setti í matvinnsluvél með restinni af innihaldinu. Þetta er maukað vel saman, í raun er maður að búa til einhvers konar pesto, þessu er svo smurt á brauðið og þetta er svo sett í ofn í 15 mínútur. Tekið út og látið kólna, þá harðnar brauðið, þornar, skorið í grófa bita og allt sett í matvinnsluvél og úr verður bragðgóður og grófur raspur sem má í raun nota á allt.
Já, ég veit hvað þú ert að hugsa…þetta er einn dýr brauðraspur, en það er allt í lagi, því hann er glorious!