Það er búið að gefa út margar kokkabækur um Elvis Presley og mataræðið hans. Hann var þekktur fyrir dálæti sitt á kaloríuríkum samlokum. Það eru til sögur af því þegar hann flaug nokkrum úr hljómsveitinni sinni frá Las Vegas eftir tónleika til Colorado því þar fékk hann uppáhalds samlokuna sína sem samanstóð af heilu fransbrauði, annar endinn skorinn af, brauðið tekið innan úr, fyllt upp með hnetusmjöri, jarðaberjasultu og 500gr af beikoni.
Hann lét líka einkakokkinn sinn oft henda í ristaða samloku með hnetusmjöri, bönunum og beikoni ef hann vaknaði svangur á næturnar.
Við deilum augljóslega dálæti okkar á hnetusmjöri og beikoni.
Ég þekki hins vegar marga sem eru ekkert sérlega hrifnir af bökuðum bönunum eða bönunum yfir höfuð. En í mínum huga er bananar t.d. ómissandi á pizzur og þá með gráðosti, pepperoni og smá chilli.
Hérna geri ég smá tilbrigði við Elvis samlokuna:
Innihald:
Múslí-brauð frá Jóa Fel
Reese‘s creamy hnetusmjör (fæst í Hagkaup)
Beikon
Sweet chilli sósa
Svartur pipar
Múslí-brauðið frá Jóa Fel er yfirleitt hlaðið rúsínum og grófu korni og mér finnst það best þegar það er örlítið brennt. Þetta Reese‘s hnetusmjör er algjör unaður, það er að vísu sætara en maður á að venjast það gerir það einmitt fullkomið í svona eldamennsku.
Aðferð:
Ég smyr góðri slummu af hnetusmjöri á sitt hvora brauðsneiðina, sker svo banana í báta og set ofan á. Síðan flétta ég beikonteppi…já BEIKONTEPPI, smyr sweet chilli sósu á samlokuna og vef svo teppinu utan um. Svartur pipar yfir og svo þarf bara að passa að þetta fái næga og jafna eldun. Ég vil að beikonið sé stökkt og að hnetusmjörið sé farið að leka, það er gott að þrýsta vel niður á samlokuna með spaða á meðan hún er að eldast.
Þetta smakkaðist guðdómlega með sætum kartöflum, verst að ég heyrði kransæðarnar stíflast.