Ég elska drekkhlaðnar pizzur með óhefðbundnu áleggi. Pizza sem slík er eins einfalt fyrirbrigði og hugsast getur og var í raun matur fátæka fólksins á Ítalíu í mörg hundruð ár. Upphaflega pizzan var í raun bara foccacia brauð með tómötum, basil og osti og stundum jafnvel ekki osti. Ég get ekki hugsað mér pizzu án þess að það sé haugur af osti á henni.
Bandaríkjamenn tóku pizzagerðina á næsta stig, ítalskir innflytjendur tóku með sér hefðina yfir Atlantshafið og í kringum seinni heimsstyrjöldina fóru að koma fram alls kyns útfærslur á hinni hefðbundnu margherita pizzu (tómatar, basil og ostur). Þessi þrjú álegg, tómatar, basil og ostur áttu að tákna ítalska fánann og minna innflytjendurnar á uppruna sinn.
Ég er nýkominn heim frá New York, ég var að fara til Bandaríkjanna í fyrsta skiptið og ég var rosalega spenntur að smakka götumatinn, ,,götupizzurnar“ sem ég hafði heyrt svo mikið um. Ég varð algjörlega ástfanginn af borginni, jazz-klúbbunum og öllum matnum.
Ég prófaði margt athyglisvert og margt alveg hræðilegt. Bestu máltíðina átti ég í Chelsea-market á Num Pang sem er svo sem ekkert merkilegur staður en briskett samlokan með kóreska kimchi-inu, kóríander og rauðkálinu sprengdi alla bragðskala og kjötið bráðnaði uppí manni.
Mér fannst stromboli-ið yfirleitt svaðalega gott enda mjög einfalt og erfitt að klúðra því, brauðhólkur með sósu, osti og pepperoni. Calzone á Angelo’s var dásemd en svo smakkaði ég pizzu með nautakjöti og ostasósu sem var aaalgjör viðbjóður en hún kveikti eiginlega löngun hjá mér til að reyna að gera betur sjálfur.
Ég mæli yfirleitt lítið þegar ég geri pizzadeig en hér er gróflega skotið á tölur.
Pizzabotn:
3 dl hveiti
15gr Þurrger
Smá salt
2 msk ólívuolía
1 msk hunang
150ml bjór
Lykillinn að góðum botni er hefun og mikil hnoðun, það þarf að hafa aðeins fyrir þessu, láta bingóvöðvana hitna örlítið.
Álegg:
Chilli og garlic pesto frá Jamie Oliver
Pizzaostur
Nautahakk
Græn paprika
Grænar ólívur
Sólþurrkaðir tómatar
Rauðlaukur
Rifinn cheddarostur
Chili mæjó
Ég á eiginlega erfitt með að hugsa mér heimagerða pizzu í dag án þess að nota pestó í staðinn fyrir hefðbundna pizzasósu, pestóið býður uppá svo miklu meiri möguleika og paranir. Það er svo mjög mikilvægt að dreifa pestóinu vel, fátt jafn sorglegt og pizza sem hefur ekki verið meðhöndluð af ástríðu.
Ég steikti nautahakkið upp úr svakalegu kryddi sem ég fékk í Williams-Sonoma, sem er uppáhalds búðin mín í New York, staðsett á Columbus Circle. Kryddið heitir Sweet Onion & Applewood og gefur sætt reykbragð.
Snowdonia Amber Mist cheddarinn er svo geggjaður á á pizzur og fæst núna t.d. í Bónus en mesta úrvalið af Snowdonia vörum er í Hagkaup.
Chili mæjóið er svo frá Kjöt og fisk….surprise surprise, ég kíkti til Gulla á Bergstaðastrætið og þau eru nýbúin að taka þá búð í gegn og hún er ofsalega falleg og vöruúrvalið er alltaf að aukast í tilbúnu réttunum.
Þegar allt áleggið, fyrir utan Chili mæjóið er komið á sinn stað er bakað við helst 220°C í ca 15 mínútur, þá er mæjóið sett á.
Geggjuð matarmikil pizza sem kemur manni í „New York state of mind“.
Var að finna bloggið þitt. Er svo að fara að gera þessa!