Á föstudaginn eldaði ég fyrir hressan gæsahóp í Kópavoginum. Það var óvænt og skemmtilegt. Boðið var uppá fylltar kjúklingabringur með sólþurrkuðum tómötum og fetaosti sem voru vafðar í beikon og smurðar með BBQ-lime olíu, grillaðar sætar kartöfluskífur, villisveppasósu og bláberjasalat.
Svona var þetta:
Kjúklingur
Þú þarft:
Kjúklingabringur
Sólþurrkaða tómata
Fetaost
Beikon
BBQ-lime olíu
Salt
Bringurnar eru skornar fiðrildaskurði og ég snyrti yfirleitt bringuna til, fjarlægi fitu, sin og jafnvel lund sem ég nota í annað. Tómatarnir eru skornir smátt og blandað saman við fetaostinn, blöndunni er svo troðið inn í bringuna og hún er svo þétt vafin með beikoni til að loka sárinu, ca 3 sneiðar per bringu. BBQ-lime olíunni er svo seytlað yfir og gróft salt mulið yfir. Látið standa í alla vega klukkutíma svo að olían í fyllingunni og utan á nái að síast inn í kjötið. Grillað á mjög háum hita, aðeins að fíra upp í beikoninu og síðan skellt í ofn við vægari hita (150°C) þar til kjarnhitinn nær 68°C, látið hvíla í ca 10 mínútur og VOILA! Þið hafið mýkstu og safaríkustu kjúklingabringur sem þið hafið smakkað.
Sætar kartöflur
Þú þarft:
Sætar kartöflur
Olívuolíu
Salt og pipar
Kartöflurnar eru skrældar og skornar í ca hálfs cm sneiðar, penslaðar með olíu og salti og pipar mulið yfir. Grillað á heitu grilli, passa að brenna ekki.
Sósan
Þú þarft:
Sveppir
Hvítlauksmauk
Smjör
Villisveppaostur
Matreiðslurjómi
Smá púðursykur
Sveppakraftur
Salt og pipar
Sveppirnir eru skornir í grófar sneiðar, steiktir í smjöri og hvítlauksmaukinu, salt og pipar. Rjómanum hellt útá og villisveppaostur í littlum bitum settur útí (ca einn ostur á móti hálfum lítra af rjóma). Púðursykur og fljótandi sveppakraftur blandað saman við, passa að hræra reglulega í, ná upp suðu og láta malla aðeins, bræða ostinn, smakka til, bragðbæta með salt og pipar.
Bláberjasalat
Þú þarft:
Spínat
Lambhagasalat
Rauðlaukur
Sætar paprikur
Bláber
Elsa balsamicsýróp
Einfalt en gott og balsamicsýrópið frá Elsu er frábært.
Fyrirtaks veisla, allir gestirnir glaðir og þetta kostaði mun minna en að fara með allan hópinn á veitingastað.
Hægt er að hafa samband við mig í gegnum Facebook https://www.facebook.com/toddibrasar/?fref=ts