Fermingartímabilið er runnið upp með öllum sínum kransakökum, brauðtertum marsípanrjómaklessum o.s.fr.v.
Raunveruleg stjarna allra fremingarveislna er að mínu mati hins vegar heiti skinkubrauðrétturinn. Með nóg af mjúkum aspas, tonni af osti og kruðeríi. Fullkomið í minningunni þegar maður skreið skeeelþunnur í fermingarveislu hjá fjarskyldum unglingi sem maður hafði aldrei átt í samskiptum við.
Þetta er einfaldara en mann grunar, í mína útgáfu þarftu:
- Fransbrauð
- Hálfan líter rjóma
- 1 Villisveppaost
- 4 hvítlauksrif (maukað)
- 1 box sveppi
- 8 sneiðar af gæða skinku
- 1 Rauða papriku
- 1 dós maísbaunir
- 1 krukka heill aspas (helst Green Giant, það er best)
- Reykta papriku
- Salt og pipar
- Gratínostur
- Sriracha Mayo
- Súrkál eða kimchi
Súrkálið og Sriracha-mayoið er algjörlega auka og má alveg sleppa en mér finnst það gefa þessu alveg nýtt twist.
Maður byrjar á að skera skorpuna af brauðinu og skera það í teninga og raða í eldfast mót, ég geri alltaf tvö í einu, svo maður eigi eitt til vara…og smá afganga.
Ég helli svo smá aspas safa yfir brauðið..bara af því bara.
Svo steiki ég sveppi, skinku, papriku og aspas í smástund á pönnu, salt og pipar eins og hver og einn kýs og reykta papriku…ég elska reykta papriku.
Ég kaupi yfirleitt lúxusskinku hjá Pylsumeistaranum á Laugalæk, hún er algjör yfirburðarskinka.
Svo malla ég saman Villisveppaost og rjóma á lágum hita.
Skinkugumsið fer svo ofan á brauðið nokkuð jafnt, maís þar yfir og svo ostasósan og svo gratínosturinn.
Þetta fer svo í ofn í ca. 20-25 mín á 200°C og þá skreyti ég með Sriracha Mayo, sem er gott með næstum öllu, í Muay Thai á Hlemmi fást ca. 3000 tegundir af þessu, algjört himnaríki.
Ég servera þetta með Súrkáli með eplum og rúsínum, geggjað dæmi sem fæst hjá Frú Laugu á Laugalæk og einnig í Rabbarbarnum á Hlemmi mathöll.
Þetta er svo dásamlega kitsch og vekur upp góðar minningar. Heitur skinkubrauðréttur og ískalt kók, ómæ…ómæ.