Á sumrin er gott að gera vel við sig í mat og drykk…sem og á öðrum árstíðum. Ég er mikill aðdáandi ostakökukrems og ég elska bara ostakökur yfir höfuð.
Ég hef prófað margar útfærslur á kremi, hver hefur sinn sjarma. Stundum finnst mér gott að nota vanillubúðing frá Royal, hef prófað að gera New York (sjá hér: https://toddibrasar.com/2015/10/07/new-york-ostakaka/) , Oreo-ostakökur og ég veit ekki hvað og hvað en niðurstaðan er yfirleitt sú að einfalt er alltaf best.
Ef maður kemst yfir risastór jarðaber er gaman að gera smá tilraunir og af hverju ekki að setja ostakökuna inn í jarðaberin í staðinn fyrir öfugt? Þá er hægt að leika sér með það sem maður setur ofan á og úr verður einn munnbiti af himnesku bragði.
Þú þarft:
8 stór jarðaber
2 msk rjómaostur
3 msk flórsykur
2 tsk vanilludropar
Lakkrísduft
Lakkrískurl
Kókosmjöl
Maður byrjar á að skera toppinn af berjunum og fjarlægja kjarnann, skola vel.
Hræra saman rjómaosti, flórsykri og vanilludropum, hérna gæti maður þurft að smakka sig áfram til að fá réttan balance, hrært þar til það er orðið vel mjúkt.
Kreminu er svo sprautað eða komið fyrir innan í berinu, berinu er síðan dýft í kurl að vild, getur líka verið gott að nota muldar makkarónur.
Er þetta ekki kjörið á kaffiborðið?