Goðsagnirnar eru sannar!
Ég frétti frá öðrum matgæðingi að hægt væri að búa til flauelsmjúka ostaköku úr Oreo og Nutella, ég hugsaði að þetta væri of gott til að vera satt og ákvað að prófa. Ég notaði hins vegar ekki original Nutella heldur nýtt heslihnetusúkkulaðismjör frá Nóa Sírius, Nizza. Þó mér finnist notkunin á Z-unni vera kjána/plebbaleg þá er það á hreinu að Nói kann á súkkulaðið sitt. Dásemdin eina.
Þessi ostakaka er sem sagt með Oreo kexi í botninum, kremið er samansett af rjómaosti, Nizza súkkulaðinu og þeyttum rjóma.
Og hér krakkar er uppskriftin:
1 pakki Oreo (4×4 pakkningar)
200gr Rjómaostur (hálf dós)
275 gr Nizza (2/3 dós)
1 peli rjómi (þeyttur)
50 gr smjör
100 gr salthnetur
Kókosmjöl að vild
Oreo-ið er mulið saman við smjörið í matvinnsluvél og þjappað í botninn.
Rjómaosturinn og Nizzað er hrært vel saman. Þeytta rjómanum er svo blandað saman og smurt ofan á botninn.
Salthneturnar eru svo muldar í matvinnsluvélinni og stráð yfir og kókos á milli.
Svo fannst mér líka sniðugt að prófa setja í krukkur, frábært til að taka með í pikknikk.
Ótrúlega mjúk og góð ostakaka, sæt og frábær með rótsterku brasilísku svartagulli 🙂